Ég ætla að byrja þessa færslu á að sýna ykkur uppskeruna í dag. Jarðarber og blæjuber úr gróðurhúsinu. Svo var bara að þeyta rjóma og gúffa þessu í sig. Fór líka með eftirrétt til Heiðu og mömmu eftir hádegismatinn.
Snækórónan ilmar eins og gula ameríska tyggjóið í gamla daga
Hansarósin í blóma
Birkikvisturinn líka
Þessi Vestmannaeyja Baldursbrá kom á bak við hús. Vissi ekki af henni fyrr en í dag. Gaman að finna svona fallegar plöntur. Það er svo skrýtið að hún verður ekki ofkrýnd nema hún hafi venjulega Baldursbrá nálægt sér. Þetta sagði Guðbjörg vinkona mér fyrir tveim árum en þá var mín alveg eins og hin venjulega Baldursbrá. Ég setti svo þannig jurt við hlið eyjablómsins og viti menn, hún varð ofkrýnd aftur. Skrýtið er þetta með náttúruna og alltaf eitthvað sem kemur manni á óvart
Þessi fallega planta hefur ekki verið í hávegum hjá mér. Hún óx bara aftan við gróðurhúsið og ekkert spennandi við hana. Í fyrra þegar við gerðum nýja gróðurhúsið þá klipptum við hana alveg niður og þá allt í einu byrjaði hún að taka við sér. Mér er sagt að hún heiti Víðikvistur. Best að hugsa vel um þessa í framtíðinni.
Fyrir helgina keypti ég á útsölu hindberja-og brómberjaplöntur sem ég ætla að setja í gróðurhúsið. Planið er svo að kaupa lampa fyrir haustið og setja tímarofa svo það verði bjartara á daginn og svo myrkur að nóttu og reyna að rækta sitt eigið grænmeti og ávexti allan ársins hring. Sjálfbærni, það er málið, ekki satt?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli