föstudagur, 30. janúar 2015

Upplýsingar um sumarblóm/Blómaval/Facebook

NÚ ER TÍMI FYRIR FRÆ!
Blómaval býður uppá 412 mismunandi frætegundir og úrval af ræktunarvörum. Úrvalið er mismunandi eftir verslunum.
Sumarblómafræ, Fræ af gróðurskálaplöntum, Grænmetisfræ, Grænmetisfræ fyrir gróðurhús og Kryddjurtafræ svo eitthvað sé nefnt.
Sáning fræja;
Hvað er á verkefnalistanum?
Þrífa gamla sáningarbakka, potta eða önnur ílát eða kaupa nýtt.
Sáningartími / forræktun er mislangur, fer eftir tegundum.
Flest sumarblóm þurfa 4-8 vikna forræktun fyrir útplöntun, önnur mun lengri tíma og sumum má sá beint út að vori.
Geymslutími fræja er ca. 3-5 ár og best er að geyma þau í fræbréfinu eða bréfpokum á köldum og dimmum stað, t.d. í ísskáp.
Janúar– Febrúar
Nú þarf að sá fyrstu sumarblómunum, t.d. stjúpum, Viola x wittrockiana.
Mold
Best er að kaupa sáðmold, hún er laus við alla sjúkdóma og það er ekki of sterk áburðarblanda í henni.
Sáning
Setja sáðmoldina í sáðbakka (eða önnur ílát). Þjappa létt, vökva rétt yfir moldina og strá fræjunum yfir moldina, ekki of þétt. Stærri fræjum er hægt að sá beint í hólfin á bökkunum og sáldra fínlegri mold létt yfir þau.
Hitastig við spírun
Góður spírunarhiti á að ver ca. 18-23 C.
Birta við spírun
Flest fræ þurfa ekki birtu meðan á spírun stendur, má þá leggja dagblað yfir sáðbakkann.
Raki við spírun
Mátulega mikill og jafn raki verður að vera meðan á spírun stendur. Gott er að leggja plastfilmu eða glerplötu yfir sáðbakkana og spreyja með hreinu ilvolgu vatni yfir moldina til að viðhalda rakanum, þó ekki þannig að það verði vatnssósa. Loftskipti verða þegar plastinu er lyft af öðru hvoru.
Ræktun – uppeldi
Strax efir spírun (þegar litlu spírurnar eru rétt komnar upp úr moldinni) þurfa plönturnar að fá góða birtu. Þarf þá að fjarlægja dagböðin.
Hitastig í ræktun
Lægri hiti í ræktun ca. 10-18 °C.
Birta í ræktun
Góða birtu en ekki beina sól.
Raki við ræktun
Ekki raki = taka plastfilmu eða gler af. Vökva oft en lítið í einu ágætt að spreyja moldina með hreinu vatni.
Staðsetning
Gluggakista í heimahúsum hentar mjög vel, þá er hægt að hækka hita á ofninum við spírun og lækka við ræktun.
Dreifsetning -Priklun
Þegar smáplönturnar hafa fengið 3-4 laufblöð er rétt að dreifsetja þeim í hólfaða bakka eða potta. Nota skal úrvals gróðurmold í bakkana/pottana.
Gott er að hafa priklpinna eða bara blýant. Stungið er niður með litlu plöntunni og ýtt varlega undir rótina og losuð frá hinum smáplöntunum.
Ný gróðurmold er sett í hólfaða bakka eða potta vökvað létt yfir og pinnanum stungið niður í hann og gerð hola með pinnanum og plantan sett í holuna og moldinni ýtt varlega að og vökvað örlítið yfir.
Fyrsta vaxtarrýmið er hæfilegt ca. 5x5. Svo er gott að umpotta þeim aftur í stærri hólfaða bakka eða potta þegar ræturnar hafa fyllt út í hólfin.
Herðing
Áður en sumarblómin eru sett út að vori er gott að herða þær, svo þær fái ekki sjokk að fara úr stofuglugganum út í íslenska sumarið.
Það er gert með því að flytja þær á svalari stað áður en þeim er plantað út. T.d. inn í kaldan bjartan bílskúr, gróðurhús, vermireit eða bara út á daginn og inn á nóttinni. Þetta þarf að gera ca. í 5-10 daga.
Útplöntun
Planta má blómunum út um miðjan maí fer eftir hitastigi, ef von er á frosti og búið að planta öllu í garðinn eða kerin er gott að skýla þeim með akrýldúk.
Muna svo að gefa áburð, vökva og panta sólina.