laugardagur, 27. október 2012

Vetur, sumar, vor og haust.

Sumarverkin að baki og haustverkin líka og ég hef ekkert skráð hérna. Sumarið var yndislegt og við bættum ýmsum jurtum við í garðinum okkar. Tvö eplatré Transparent Blance , sjá mynd hérna og Eva Lotta bættust við í skjóli við gróðurhúsið. Garðahlynur, Silfurreynir og Ilmreynir. Svo keyptum við líka þrjár sígrænar plöntur og settum meðfram gangstéttinni. Það eru Lindifura og Fjallaþöll, tvær þannig og ein fura. Ég náði mér í litla Eik í Danaveldi og hún lifði af flutninginn heim.

mánudagur, 21. maí 2012

Vor/sumarverkin


Já þá er það garðurinn, brytja rabbabara og setja niður sex stikilsberjatré í matjurtagarðinn. Ég dreifði rabbabarablöðunum ofan á illgresi sem var að byrja að skjóta upp kollinum. Hef heyrt að blöðin drepi illgresið. Spennandi að vita hvað gerist en annars ætla ég að eitra með Round up það sem ekki fer í kartöflugarðinn. Svo er bara að bjarga jarðarberjunum og gera snyrtilegt kring um þau. Vonandi þarf ég þá ekki að vera í kapphlaupi við sniglana í haust þegar berin byrja að roðna.
Það gerði heilmikið öskufall hér og hvessti hressilega. Þrátt fyrir mistrið setti ég út þvott úr einni vél og svo sagaði ég eitt tré í bakgarðinum. Þegar ég hafði sagað var þvotturinn orðinn þurr. Hressilegur vindur þar á ferð.

Magga og Hörður komu færandi hendi og ég á því orðið kertastjaka og lampa úr Himalajasalti, langþráð ósk mín hefur því rætst því ég hef oft hugleitt að splæsa á mig svona djásnum en alltaf hætt við og fundist að eitthvað annað ætti að ganga fyrir.

Steini minn pjakklar hér um allt og drífur hlutina áfram. Hann hefur verið að gera smá einfalt vökvunarkerfi fyrir gróðurhúsið og nú er hann að búa til ramma með hænsnaneti svo dýr og börn fari ekki í gróðurhúsið þegar þörf er á að hafa opið á sólardögum.

Við settum niður kartöflurnar í gær og svo vonum við bara að það rigni fljótlega því við höfum ekki gefið okkur tíma ennþá til að vökva, spáir nefnilega rigningu.

Ég setti út sumarblómin, dreifði þeim í potta og smá beð, sum eru ennþá inni í gróðurhúsinu og ég setti pottana ofan á þar sem götin eru á slöngunni/vökvunarkerfinu okkar.

Búið er að taka girðinguna niður við götuna, frá hliðinu og niður að bílskúr. Ætlum að leyfa Fjallarifsinu að loka garðinum og setja dagblöð og kurl í beðin og svo þekjujurtir. Gaman að vita hvernig þetta gengur.

fimmtudagur, 26. apríl 2012

Sníkjudýr

Hér eru mörg góð ráð ef maður vill ekki eitra mikið.
Í dag er aðeins byrjað að rigna og það er bara frábært fyrir gróðurinn, allt er orðið svo þurrt. Steini hennar Gunnhildar kom og aðstoðaði nafna sinn fyrir hádegi í fyrradag við að kurla trén á lóðinni. Stærstu staurana vil ég fá í eldivið því ég er alveg ákveðin í að búa til svona eldstæði. Eftir nónhressingu í fyrradag og hádegi í gær kom svo Ingvar Örn og lauk við verkið. Það er ómetanlegt að eiga svona hjálpsama vini.

Stilkbeðjan (CHARD) stækkar og stækkar í gróðurhúsinu. Hún hefur skilað blöðum í allan vetur. Hér eru hugmyndir sem ég fann á netinu:

  1. Silfurblaðka (stilkbeðja) er jurt með litríka stöngla sem setur ferskan blæ á hvaða rétt sem er. Hana er gott að léttsteikja á pönnu, bæði blöð og stöngla, líkt og spínat.
  2. Hægt er að sneiða stilkinn á stilkbeðjunni  og steikja í smjöri og blöðin bragðast eins og spínat. Stilkbeðja er náskyld rauðrófunni með rauðan eða gulan stilk og tekur sig afar vel út í garðinum, að hennar sögn.

laugardagur, 31. mars 2012

Bergþóra aðstoðar ömmu

From Gróðurhúsið 31.3.2012
Hér eru myndir frá fræsetningu fyrir sumarblóm, gúrkur og tómata, papriku og vökvun dagsins. Vínberin að myndast, jarðarberin að koma og allt að gerast. Ég elska þennan tíma ársins. Með vorinu kemur heilsan mín aftur.
From Gróðurhúsið 31.3.2012

fimmtudagur, 15. mars 2012

Gróðurhúsið

Í dag hjálpaði Þórdís mér að hreinsa aðeins beðin og gólfið og svo settum við niður fræ.
Fremst til vinstri eru vínberjasprotar frá í fyrra og mandarínu/appelsínuplanta frá Gesti og eplasproti frá Æskukoti. Jarðaber skríða meðfram brúninni og Bergfléttan breiðir úr sér upp steypta vegginn.
Fyrir innan þetta settum við grænkál og sykurbaunir.

Í endanum verða svo tómatplönturnar en þegar til kom átti ég ekki fræ. Þarna eru inniplönturnar mínar og kryddjurt sem mig minnir að heiti Salvía. Þarna er líka stilkbeðja, steinselja og Aloe Vera jurtir. Mandarínu/appelsínuplanta teygir sig upp af fullum krafti.
Hægra megin fremst settum við spínat hjá tveim vínberjaplöntum sem ekkert gáfu af sér í fyrra. Leyfi þeim að spreyta sig núna annars verða þær látnar hverfa. Næst koma kirsuberjasteinar frá Gunnhildi og svo blanda af salati og einn bláberjarunni.
Rósin hægra megin fær að halda sér, tími ekki að henda henni út þó svo hún sé óttalega lússækin.
Vínberjaplantan teygir sig svo alveg inn í enda og ég reyndi að stýra vextinum á henni í fyrra. Hún er að byrja að taka við sér og nú þegar eru byrjaðir að koma "klasar"
Það var 27°C í gróðurhúsinu í dag á meðan við dunduðum okkur þar.