miðvikudagur, 12. ágúst 2015

Sumar-eða haustlægð

Sú fyrsta er að ganga yfir landið og loksins þegar fór að rigna þá er spáð hífandi roki.

Blóm og runnar ekki nema rétt byrjaðir að blómstra.

Hvað er þá til ráða?

Taka myndir og ylja sér við ef allt fer til andsk..... Hér eru myndir frá í gær

Lífrænar varnir fyrir gróðurhúsið

  • LÚS, ef hætta er á lús og hvítflugu, þá má nota skordýrasápu. 
  • HVÍTFLUGA dregst að skærum hlutum, svo flugnaspjöld í skærum litum geta komið að góðum notum.
  • LÚS, einnig eru ýmsir laukar hentugir til að fæla meindýr, skera þá niður og stinga innanum kryddplöntuna, líka er gott að rækta graslauk og hafa nálægt hinum jurtunum/plöntunum.

  • LÚS, ef lús er á jurtinni reyndu að smyrja Vaseline neðst á stilkana og lýsnar komast ekki upp eftir jurtinni.
  • LÚS, leggja sneið af hrárri kartöflu í pottinn. Lýsnar skríða á hana og þú hendir svo bara kartöflusneiðinni. Endurtaka í nokkra daga, eftir svona tvo til þrjá daga ætti allt að vera horfið.
  • SVEPPIR í/á jurtinni, matarsóti + vatn drepur sveppi.
  • MEINDÝR, vörn gegn meindýrum, skola plöntuna undir rennandi vatni reglulega.
  • SKORDÝR, Maxicrop og vatn saman og úða yfir laufin, fælandi fyrir skordýr og gefur áburð í leiðinni. 
  • SPUNAMAUR OG BLAÐLÚS, sítrónudropum, brúnsápu og vatni, úða gegn spunamaur og blaðlús.
  • BLAÐLÚS, brúnsápa og própanol (spritt) og vatn gegn blaðlús.
  • MYGLA, Anna Saari ráðleggur okkur að dusta matarsóda yfir moldina - það hjálpar oft með myglu
  • PÖDDUR, ráð við pöddum í kryddjurtum, 1 l. vatn, msk. grænsápu/brúnsápu og tsk. sítrónudropa, á viku fresti í þrjár vikur.
  • Anna Saari hefur sett niður flauelsblóm innan um kálplöntur - þau fæla - þetta hefur virkað ágætlega 
  • Vilmundur Hansen : Lífrænar varnir
    Sápa og sódavatn
    0,8 lítrar vatn
    0,1 lítri sódavatn
    0,1 lítri græn- eða brúnsápa
    Sápan er leyst upp í vatninu og sódavatninu bætt út í síðast. Hellt í brúsa og úðað yfir plönturnar.
  • Auður Sæmundsdóttir: ráð við lús -  Ég hef sett heil hvítlauksrif ofan í moldina hjá Hawairósunum mínum,sem voru þaktar lús .Síðan hef ég ekki þurft að hafa neinar áhyggjur..Virkaði vel hjá mér.
  • Ragnheiður Eyjólfsdóttir :  Hér í Þýskalandi láta menn brenninetlu liggja í vatni í garðkönnu eða fötu yfir nótt eða tvær og þá er maður víst komin með fínasta lúsaeyði, sem er þar að auki ekki skaðlegur fyrir umhverfið.

sunnudagur, 9. ágúst 2015

Allt í blóma

Ég ætla að byrja þessa færslu á að sýna ykkur uppskeruna í dag. Jarðarber og blæjuber úr gróðurhúsinu. Svo var bara að þeyta rjóma og gúffa þessu í sig. Fór líka með eftirrétt til Heiðu og mömmu eftir hádegismatinn. 

Snækórónan ilmar eins og gula ameríska tyggjóið í gamla daga

 Hansarósin í blóma

Birkikvisturinn líka


Þessi Vestmannaeyja Baldursbrá kom á bak við hús. Vissi ekki af henni fyrr en í dag. Gaman að finna svona fallegar plöntur. Það er svo skrýtið að hún verður ekki ofkrýnd nema hún hafi venjulega Baldursbrá nálægt sér. Þetta sagði Guðbjörg vinkona mér fyrir tveim árum en þá var mín alveg eins og hin venjulega Baldursbrá. Ég setti svo þannig jurt við hlið eyjablómsins og viti menn, hún varð ofkrýnd aftur. Skrýtið er þetta með náttúruna og alltaf eitthvað sem kemur manni á óvart


Þessi fallega planta hefur ekki verið í hávegum hjá mér. Hún óx bara aftan við gróðurhúsið og ekkert spennandi við hana. Í fyrra þegar við gerðum nýja gróðurhúsið þá klipptum við hana alveg niður og þá allt í einu byrjaði hún að taka við sér. Mér er sagt að hún heiti Víðikvistur. Best að hugsa vel um þessa í framtíðinni. 

Fyrir helgina keypti ég á útsölu hindberja-og brómberjaplöntur sem ég ætla að setja í gróðurhúsið. Planið er svo að kaupa lampa fyrir haustið og setja tímarofa svo það verði bjartara á daginn og svo myrkur að nóttu og reyna að rækta sitt eigið grænmeti og ávexti allan ársins hring. Sjálfbærni, það er málið, ekki satt?

miðvikudagur, 5. ágúst 2015

Lús þolir víst ekki hvítlauk

Lús þolir ekki hvítlauk, svo búðu til þinn eigin lúsaeyði.
2, hvítlaukar kramdir settir í 1 líter af vatni, látið malla í potti í 20 mín á lágum hita. 
Kælt, sigtað  og sett í sprey brúsa

Prófaði þetta í dag og gróf svo restina af soðna hvítlauknum niður hér og þar í moldina í gróðurhúsinu. Spennandi að vita hvað gerist.