mánudagur, 21. maí 2012

Vor/sumarverkin


Já þá er það garðurinn, brytja rabbabara og setja niður sex stikilsberjatré í matjurtagarðinn. Ég dreifði rabbabarablöðunum ofan á illgresi sem var að byrja að skjóta upp kollinum. Hef heyrt að blöðin drepi illgresið. Spennandi að vita hvað gerist en annars ætla ég að eitra með Round up það sem ekki fer í kartöflugarðinn. Svo er bara að bjarga jarðarberjunum og gera snyrtilegt kring um þau. Vonandi þarf ég þá ekki að vera í kapphlaupi við sniglana í haust þegar berin byrja að roðna.
Það gerði heilmikið öskufall hér og hvessti hressilega. Þrátt fyrir mistrið setti ég út þvott úr einni vél og svo sagaði ég eitt tré í bakgarðinum. Þegar ég hafði sagað var þvotturinn orðinn þurr. Hressilegur vindur þar á ferð.

Magga og Hörður komu færandi hendi og ég á því orðið kertastjaka og lampa úr Himalajasalti, langþráð ósk mín hefur því rætst því ég hef oft hugleitt að splæsa á mig svona djásnum en alltaf hætt við og fundist að eitthvað annað ætti að ganga fyrir.

Steini minn pjakklar hér um allt og drífur hlutina áfram. Hann hefur verið að gera smá einfalt vökvunarkerfi fyrir gróðurhúsið og nú er hann að búa til ramma með hænsnaneti svo dýr og börn fari ekki í gróðurhúsið þegar þörf er á að hafa opið á sólardögum.

Við settum niður kartöflurnar í gær og svo vonum við bara að það rigni fljótlega því við höfum ekki gefið okkur tíma ennþá til að vökva, spáir nefnilega rigningu.

Ég setti út sumarblómin, dreifði þeim í potta og smá beð, sum eru ennþá inni í gróðurhúsinu og ég setti pottana ofan á þar sem götin eru á slöngunni/vökvunarkerfinu okkar.

Búið er að taka girðinguna niður við götuna, frá hliðinu og niður að bílskúr. Ætlum að leyfa Fjallarifsinu að loka garðinum og setja dagblöð og kurl í beðin og svo þekjujurtir. Gaman að vita hvernig þetta gengur.