Auðvelt er að búa til rótarhvata fyrir sumargræðlinga úr ungum víði- eða aspargreinum. Börkurinn er skafinn utan af greinunum og marinn dálítið. Síðan er hellt upp á hann sjóðandi vatni eins og te og látið kólna. Hæfilegt magn af berki í einn lítra af vatni er á stærð við hænuegg, sé honum hnoðað saman. Þegar seyðið hefur kólnað eru græðlingarnir látnir standa í því yfir nótt og þeim síðan stungið í rætingarílát með rökum græðlingasandi.
Virka efnið í blöndunni er salisýlsýra (víðisýra) sem finnst í víði og ösp. Áður fyrr var víðibörkurinn notaður til að lina verki. Nú á tímum er í staðinn notuð asetýlsalisýlsýra sem gerð er í lyfjaverksmiðjum og seld í töfluformi sem aspirín eða magnýl. Hugsanlega gæti gert sama gagn að mylja eina aspirín- eða magnýltöflu út í volgt vatn og fara síðan eins að með græðlingana.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli