Í dag er aðeins byrjað að rigna og það er bara frábært fyrir gróðurinn, allt er orðið svo þurrt. Steini hennar Gunnhildar kom og aðstoðaði nafna sinn fyrir hádegi í fyrradag við að kurla trén á lóðinni. Stærstu staurana vil ég fá í eldivið því ég er alveg ákveðin í að búa til svona eldstæði. Eftir nónhressingu í fyrradag og hádegi í gær kom svo Ingvar Örn og lauk við verkið. Það er ómetanlegt að eiga svona hjálpsama vini.
Stilkbeðjan (CHARD) stækkar og stækkar í gróðurhúsinu. Hún hefur skilað blöðum í allan vetur. Hér eru hugmyndir sem ég fann á netinu:
- Silfurblaðka (stilkbeðja) er jurt með litríka stöngla sem setur ferskan blæ á hvaða rétt sem er. Hana er gott að léttsteikja á pönnu, bæði blöð og stöngla, líkt og spínat.
- Hægt er að sneiða stilkinn á stilkbeðjunni og steikja í smjöri og blöðin bragðast eins og spínat. Stilkbeðja er náskyld rauðrófunni með rauðan eða gulan stilk og tekur sig afar vel út í garðinum, að hennar sögn.